SJÚKLINGAR

Leiðbeiningar til sjúklinga
eftir tannútdrátt

1. Ekki skola munninn fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð.  

a. Það er í lagi að drekka kalda tæra drykki, svo lengi sem þeim er ekki velt um munninn heldur kyngt strax. 
b. Það er í lagi að bursta tennurnar en varastu að bursta sárið.  Það þarf ekki  að skola munninn eftir tannbrustun. 
c. Á öðrum degi og fram að saumatöku er gott að skola munninn tvisvar sinnum á dag með sótthreinsandi munnskoli, t.d. Paroex, Corsodyl, Hextril eða Tannskol.

2. Ekki borða fyrr en deyfing er farin úr.

a. Haltu þig við fljótandi eða mjúkt fæði fyrstu dagana eftir úrdráttinn.  
b. Varastu mat með smáum bitum sem geta fests í sárinu, t.d. múslí, heilir kjarnar og korn í brauði o.þ.h. 
c. Borðaðu aðeins kaldan mat fyrsta sólarhringinn. 
d. Forðastu að nota sogrör.

3. Það er eðlilegt að komi fram bólga eftir tannúrdrátt.  Hún nær hámarki á öðrum degi eftir úrdrátt og er oftast alveg horfin eftir viku.

4. Væg blæðing er eðlileg fyrsta sólarhringinn og getur munnvatn verið ögn blóðlitað.  Ef blæðir úr sárinu dugar oftast að leggja hreina grisju yfir sárið og bíta þétt niður í 5-10 mínútur.

5. Búast má við eymslum og verk í sárinu fyrstu dagana.  Mikilvægt er að nota verkjalyf eins og þarf.

a. Ef skrifað hefur verið út bólgueyðandi verkjalyf eins og Íbúfen eða Voltaren er gott að taka paracetamól (td. Panódíl eða Paratabs) samhliða því. Fullorðnir (eldri en 18 ára) taka þá venjulega eina töflu af bólgueyðandi lyfinu og 500-1000 mg af paracetamóli 3-4 sinnum á sólarhring. 
b. Bólgueyðandi verkjalyf geta valdið óþægindum í maga og ef þú verður var við slík óþægindi skaltu hætta töku þeirra.

6. Ef verkir versna á 3-4 degi eftir aðgerð getur verið að blóðstorkan í sárinu hafi losnað.  Þetta er nefnt „dry socket“ og er tiltölulega einfalt að meðhöndla.  Hafðu sem fyrst samband við stofuna ef þetta er tilfellið.

7. Almennt er ekki þörf á að ávísa sýklalyfjum eftir tannúrdrátt hjá heilbrigðum eintaklingum.  Á þessu eru þó undantekningar og ef sýklalyfjum hefur verið ávísað er mikilvægt að taka þau.  Sýklalyf geta valdið aukaverkunum og ef það er tilfellið hafðu þá samband við stofuna.

^

Leiðbeiningar til sjúklinga
eftir aðgerð í munni

1. Ekki skola munninn fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð.  

a. Það er í lagi að drekka kalda tæra drykki, svo lengi sem þeim er ekki velt um munninn heldur kyngt strax. 
b. Það er í lagi að bursta tennurnar en varastu að bursta sárið.  Það þarf ekki  að skola munninn eftir tannbrustun. 
c. Á öðrum degi og fram að saumatöku er gott að skola munninn tvisvar sinnum á dag með sótthreinsandi munnskoli, t.d. Paroex, Corsodyl, Hextril eða Tannskol.

2. Ekki borða fyrr en deyfing er farin úr.

a. Haltu þig við fljótandi eða mjúkt fæði þar til saumar hafa verið fjarlægðir.p.p1 {margin: 0.0px b. Borðaðu aðeins kaldan mat fyrsta sólarhringinn.

3. Það er eðlilegt að komi fram bólga eftir aðgerðina.  Hún nær hámarki á öðrum degi eftir aðgerð og er oftast horfin alveg eftir 7-10 daga.

4. Eðlilegt að fá marblett á aðgerðarsvæðinu.

5. Væg blæðing er eðlileg fyrsta sólarhringinn og getur munnvatn verið ögn blóðlitað.  Ef mikð blæðir úr sárinu eða lengi hafði þá samband við stofuna.

6. Búast má við eymslum og verk í sárinu fyrstu dagana.  Mikilvægt er að nota verkjalyf eins og þarf.

a. Ef skrifað hefur verið út bólgueyðandi verkjalyf eins og Íbúfen eða Voltaren er gott að taka paracetamól (td. Panódíl eða Paratabs) samhliða því. Fullorðnir (eldri en 18 ára) taka þá venjulega eina töflu af bólgueyðandi lyfinu og 500-1000 mg af paracetamóli 3-4 sinnum á sólarhring. 
b. Bólgueyðandi verkjalyf geta valdið óþægindum í maga og ef þú verður var við slík óþægindi skaltu hætta töku þeirra.

7. Ef sýklalyfjum hefur verið ávísað er mikilvægt að taka þau.  Sýklalyf geta valdið aukaverkunum og ef það er tilfellið hafðu þá samband við stofuna.

^

Endajaxlar

Framtennurnar í neðri gómi eru farnar að skekkjast. Eru endajaxlarnir að ýta á tennurnar og valda þessu?

Nei. Rannsóknir síðustu áratugina benda eindregið þess að þetta sé langlíf þjóðsaga. Skekkja á framtönnum í neðri gómi (kölluð „late anterior crowding“ á ensku) er nokkuð sem mörg okkar upplifa í kringum tvítugt. Þar sem endajaxlarnir eru að koma upp á þessum sama aldri hefur þeim í gegnum tíðina verið kennt um þetta. Hins vegar virðist þetta gerast hvort sem þeir eru til staðar eða ekki og þeir eru því hafðir fyrir rangri sök.

Hverjar eru helstu ástæður þess að fjarlægja þarf endajaxla?

Oftast þarf að fjarlægja endajaxla vegna þess að þeir hafa ekki nægt pláss. Þá gengur illa að halda þeim hreinum. Matur og bakteríur úr munnholinu pakkast gjarnan undir slímhúð sem liggur yfir krónu endajaxlsins og á endanum skemmist jaxlinn eða vefurinn umhverfis krónuna sýkist. 

Stundum liggja endajaxlar á hliðinni og í þeim tilfellum eiga þeir til að eyða beini frá tönninni fyrir framan (12 ára jaxlinum) og jafnvel valda þeir eyðingu á 12 ára jaxlinum sjálfum.

Í sjaldgæfum tilfellum getur myndast góðkynja blaðra (sk. belgmein) utan um krónu endajaxlsins. Svoleiðis blaðra getur orðið mjög stór og veikt kjálkann. Ef hún brýtur sér leið út úr kjálkabeininu geta komist bakteríur ofan í hana og valdið slæmri sýkingu.

Hvað tekur endajaxlaaðgerð langan tíma?

Hjá sérfræðingi, sem fjarlægir marga endajaxla í hverri viku, tekur endajaxlaaðgerð þar sem tveir beinfastir endajaxlar eru fjarlægðir venjulega um 25-45 mínútur frá því er deyft og þar til síðasti saumurinn er settur.  

Hvað þarf ég að vera lengi frá vinnu/skóla eftir endajaxlaaðgerð?

Það er mjög misjafnt hversu lengi sjúklingar eru með verki, en almennt má reikna með að taka sér frí á aðgerðardegi og daginn eftir.

Hvaða verkjalyf eru gefin eftir endajaxlaaðgerð?

Gefið er lyfseðilsskylt bólgueyðandi verkjalyf eins og Íbúfen, Naproxen eða Voltaren Rapid. Með því er gott að taka paracetamól (Panodil, Paratabs) sem má kaupa án lyfseðils. Sú blanda veitir mjög góða verkjastillingu í langflestum tilfellum.

Get ég fengið róandi lyf fyrir endajaxlaaðgerð?

Já, það er hægt að fá róandi lyf fyrir aðgerðina. Það er gefið rétt áður en er deyft, virkar hratt og yfirleitt mjög vel. Lyfið er til þess að gera stuttverkandi en þú þarft að hafa með þér fullorðinn fylgdarmann sem þú treystir og getur keyrt þig heim og verið hjá þér í a.m.k. 6 klst. eftir aðgerðina.

Er hægt að láta gera aðgerðina í svæfingu?

Já, það er hægt, (sjá nánar undir liðnum „Svæfingar“). Mikilvægt er að vita að ef sjúklingurinn er 18 ára eða eldri, taka Sjúkratryggingar Íslands engan eða takmarkaðan þátt í kostnaði við svæfingu.

Þarf að taka saumana?

Almennt er best að taka sauma 5-7 dögum eftir aðgerð þó svo saumað sé með uppleysanlegum saumi. Uppleysanlegir saumar eru nokkrar vikur að fara sjálfir, þeir safna í sig bakteríum og eftir að sár eru gróin gera þeir oft meira ógagn en gagn.

^

Tannplantar

Hvað þarf að líða langur tíma frá þvi tönn er dregin og þar til tannplanta er komið fyrir?

Best er að láta líða 6 – 8 vikur. Sé beðið í skemmri tíma hefur úrdráttarsárið ekki náð að gróa nógu vel til að taka við tannplantanum. Sé beðið lengur fer að verða hætta á að beinið rýrni og tapist.

Hvað þarf að líða langur tími þar til tannplanta er komið fyrir og þar til hægt er að setja á hann krónu/brú?

Í neðri gómi er almenna reglan 6 vikur og í þeim efri 12 vikur. Þetta þarf þó alltaf að meta í hverju einstöku tilfelli.

^

Svæfingar

Er hægt að fá aðgerð framkvæmda í svæfingu?

Já, við erum reglulega með aðgerðir í svæfingu á Handlæknastöðinni í Glæsibæ.

Hvað kostar svæfing?

Kostnaður við svæfingu er mismunandi eftir því hvort Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir hana að hluta eða hvort sjúklingurinn greiðir allt gjaldið sjálfur. Klukkustundar löng svæfing sem sjúklingur greiðir sjálfur að fullu kostar u.þ.b. 60.000 krónur.

Hvenær þarf að gera aðgerð í svæfingu?

Langflestar þær aðgerðir sem við framkvæmum er hægt að gera í venjulegri staðdeyfingu. Ef sjúklingurinn er kvíðinn má gefa róandi lyf fyrir aðgerðina. Mjög kvíðnir sjúklingar gætu hins vegar þurft á svæfingu að halda, jafnvel þótt aðgerðin sé venjulega gerð án svæfingar.
Eðlilega þarf oft að framkvæma aðgerðir á börnum í svæfingu, sérstaklega yngri börnum.
Sumar aðgerðir eru það umfangsmiklar að þær þarf að gera í svæfingu, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna. Dæmi um slíkar aðgerðir eru þegar fjarlægð eru stór æxli úr kjálkunum eða þegar stór tannlaus svæði eru byggð upp fyrir tannplantameðferð.

Hvernig þarf að undirbúa sig fyrir svæfingu?

Fasta: Mjög mikilvægt er að vera fastandi frá miðnætti kvöldið fyrir aðgerðardaginn. Það þýðir að sjúklingurinn má alls ekkert borða frá þeim tíma. Tæra vökva (t.d. vatn og djús, ekki mjólk) má drekka í litlu magni þar til 3 klst. fyrir aðgerð. 

Föt: Gott er að vera í þægilegum og léttum fötum. 

Fylgd: Mikilvægt er að koma ekki einn í svæfingu heldur hafa með sér fylgdarmann sem getur fylgt sjúklingi heim eftir svæfinguna.

Hvernig þarf að undirbúa sig fyrir svæfingu?

Venjulega tekur aðeins skamma stund að vakna eftir svæfingu og flestir eru farnir heim 1 – 2 klst. eftir að aðgerð er lokið. Eftir svæfingu er eðlilegt er að vera örlítið sár í hálsinum í 1 eða 2 daga.

Barnið mitt þarf svæfingu fyrir aðgerð sem er að fullu greidd af Sjúkratrygginum Íslands. Samt þarf ég að greiða aðstöðugjald. Hvernig stendur á því?

Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki viljað semja um endurgreiðslu þess gjalds sem einkareknar skurðstofur innheimta fyrir afnot af húsnæði og tækjum. Þess vegna lendir greiðsla þessa gjalds á foreldrum barna þó svo eigi að heita að tannlækningar barna þeirra séu að fullu endurgreiddar. Þessi kostnaður fellur óhjákvæmilega til og það er alfarið ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að endurgreiða hann ekki.

^

Kjálkaaðgerðir

Í hvaða tilfellum þarf að gera kjálkaaðgerð?

Þegar bitskekkja er mjög mikil eða þegar skekkja hefur orðið í kjálkavextinum getur verið ómögulegt að rétta tennurnar og lagfæra bitið á þess að færa kjálkabeinin til í leiðinni. Þetta er sérstaklega tilfellið ef til staðar er mikið undirbit (skúffa) eða mikið yfirbit.  Í þeim tilfellum er annar kjálkinn of lítill samaborið við hinn og þann stærðarmun þarf að leiðrétta með aðgerð.

Efri kjálkinn getur líka verið vaxinn of mikið niður á við (verið of síður) og það haft í för með sér sk. gómbros.  Þá sést óeðlilega mikið af tannholdi við bros.  Það er útaf fyrir sig ekki slæmt ef það angrar ekki útlitslega en getur valdið öðrum vanda sem þarf að lagfæra.

Skakkur kjálkavöxtur verður stundum til þess að gera þarf kjálkaaðgerð.  Þá er önnur hliðin lengri en hin eða kjálkarnir snúnir.  Að lokum er stundum þörf á að gera aðgerð á efri kjálka ef bit er mikið opið á framtönnum (framtennurnar ná ekki að bíta saman) og efri kjálkinn er þröngur.

Hvernig fer meðferðin fram?

Þegar ákveðið hefur verið að gera tannréttingu og kjálkaaðgerð er alltaf byrjað á að rétta tennurnar.  Byrjað er á hefðbundinni tannréttingu með spöngum og  tönnunum er stillt upp þannig að þær passi sem best saman eftir aðgerðina.  Í sumum tilfellum hefur það í för með sér að bitskekkjan virðist aukast.  Það er þó ekki tilfellið heldur er verið að færa tennurnar á “réttan” stað.  Þessi fyrsta tannrétting tekur yfirleitt á bilinu 12 - 24 mánuði.

Ef fjarlægja þarf endajaxla eða aðrar tennur fyrir aðgerðina er það oftast gert við upphaf meðferðar.    Þegar tannréttingarlæknirinn telur orðið tímabært að gera aðgerðina er haft samband við okkur og við finnum aðgerðartíma.  U.þ.b. mánuði fyrir aðgerðina eru tekin gögn hjá tannréttingarlækningum (ljósmyndir, röntgenmyndir og mót af tönnum) og þau notuð til þess að skipuleggja aðgerðina nákvæmlega.   Útbúnar er sk. skinnur sem leiðbeina skurðlækninum hvar á að staðsetja kjálkana í aðgerðinni. 

Aðgerðin sjálf er svo framkvæmd og eftir stutta sjúkrahúsdvöl útskrifast sjúklingurinn heim til sín.  Eftir u.þ.b. 6 vikur er óhætt að hefja tannréttinguna að nýju.  Tannrétting eftir aðgerð tekur oftast a.m.k. 6 mánuði en getur tekið eitt ár eða lengur í sumum tilfellum.

Hvernig er sjálf kjálkaaðgerðin framkvæmd?

Kjálkaaðgerðir eru alltaf framkvæmdar í svæfingu. Sjúklingurinn er bæði svæfður og deyfður með staðdeyfilyfi.  Einnig eru gefin sýklalyf og bólgueyðandi lyf fyrir aðgerðina.

Þegar gerð er aðgerð á efri kjálka er gerður skurður meðfram tannholdi tannanna í efri gómi og slímhúðinni er lyft frá beininu.  Efri kjálkabeinið er skorið í sundur yfir rótum tannanna og tanngarðurinn er losaður í heilu lagi.  Hann er síðan færður í nýja stöðu og festur með málmspöngum, tveimur í hvorri hlið.  Spangirnar eru mjög þunnar og sterkar og gerðar úr títaníum.

Í neðri kjálka er aðgerðin framkvæmd í gegnum tvo skurði sem eru gerðir í munnslímhúðina þar sem endajaxlarnir voru.  Í gegnum þessa skurði er kjálkinn klofinn í sk. “saggital plani", þ.e.a.s. eftir endilöngu “fram-aftur” á kafla sem nær frá 12 ára jaxli (aftasti jaxl) og ögn aftur fyrir tannbogann.  Við þetta losnar tannborginn í heilu lagi frá kjálkaliðunum og má færa á nýjan stað.  Neðri kjálkinn er oftast festur með títanum skrúfum.

Að lokum eru öll sár saumuð og saumurinn er fjarlægður eftir 7 –10 daga. 

Verður kjálkinn víraður saman eftir aðgerðina?

Nei, það er ekki gert lengur.  Á árum áður voru kjálkarnir víraðir saman til þess að engin hreyfing væri á beinendunum á meðan þeir greru saman.  Í dag eru festingarnar sem notaðar eru til að festa kjálkana á nýjum stað það stöðugar að ekki er lengur þörf á að víra saman.  Í staðinn eru settar teygjur sem hjálpa sjúklingi að finna inn í nýja samanbitið.  Þær teygjur má taka burt og skipta um og í sumum tilfellum er ekki þörf fyrir þær nema rétt fyrstu dagana.

Hvað kostar kjálkaaðgerð?

Ef kjálkaaðgerðin er framkvæmd á sjúkrahúsi er það sjúklingi alltaf að kostnaðarlausu, enda er sá kostnaður alltaf greiddur af sjúkrahúsinu sjálfu, óháð Sjúkratrygginum.  Annar kostnaður sem fellur til hjá kjálkaskurðlækni er:

Fyrsta skoðun.  Þá er gerð meðferðaráætun og farið er yfir aðgerðina með sjúklingi og spurningum svarað.  Sjúkratryggingar taka ekki þátt í að greiða fyrir þessa fyrstu skoðun. 

Endajaxlar fjarlægðir.  Það fer eftir fyrirhugaðri aðgerð hvort og þá hvaða endajaxla þarf að fjarlægja.  Ef Sjúkratrygginar samþykkja 95% endurgreiðslu fyrir kjálkaaðgerðina fæst kostnaður við endajaxla endurgreiddur 95% eftir að kjálkaaðgerðin hefur farið fram.  Sjúklingur (eða forráðamaður) mun því þurfa að leggja út fyrir þessum kostnaði og sækja endurgreiðsluna eftir kjálkaaðgerðina.  Í fyrstu skoðun er hægt að gefa upp verð fyrir endjaxla.  Öll tilfelli eru misjöfn.

Undirbúningur og eftirmeðferð.  Þegar kemur að kjálkaðgerðinni fellur til kostnaður við að undirbúa hana og að fylgja sjúklingi eftir fyrstu vikurnar á eftir.  Sá kostnaður greiðist venjulega beint af Sjúkratryggingum og sjúklingur greiðir sinn 5% kostnaðarhlut í síðustu heimsókninni.

Greiða Sjúkratryggingar Íslands alltaf 95% af meðferðarkostnaði ef gera þarf kjálkaaðgerð?

Nei, því miður er það ekki raunin.   Áður en farið er af stað með tannréttinguna sendir tannréttingalæknirinn inn umsókn til Sjúkratrygginga um að meðferðin verði endurgreidd skv. svokallaðri 95% reglu.  Í einstaka tilfellum hafna Sjúkratryggingar umsókn um 95% greiðsluþátttöku í tannréttingu og undirbúningi fyrir kjálkaaðgerð, jafnvel þótt full þörf sé á að gera kjálkaaðgerðina.  Í þeim tilfellum fellur kostnaðurinn við meðferðina að langmestu leyti á sjúkling (eða forráðamann).

Hver er helsta áhættan við kjálkaaðgerð?

Allar aðgerðir hafa í för með sér áhættu.  Sem betur fer koma mjög sjaldan upp alvarlegar aukaveranir við kjálkaaðgerðir.

Blæðing:  Þetta er áhætta við flestar aðgerðir en afar sjaldgæf í kjálkaaðgerðum.  Ef kemur upp alvarleg blæðing í aðgerð gengur langoftast vel að stöðva hana.  Þegar gerð er aðgerð á báðum kjálkum í einu eru alltaf gerðar varúðarráðstafanir og tryggt að til staðar sé blóð til að gefa ef þarf.  Þess gerist þó afar sjaldan þörf.

Sýking:  Sýking getur komið upp í öllum aðgerðarsárum.  Þvert á það sem mætti halda eru sár í munni ekki gjarnari á að sýkjast en önnur sár.  Það er m.a. vegna þess að þau gróa mjög hratt.  Ef sýking kemur upp í aðgerðarsári eftir kjálkaaðgerð er það sjaldan alvarlegt mál og yfirleitt auðleysanlegt.  Stundum þarf að fjarlægja títaníum spangirnar sem festa kjálkann og það er þá gert eftir að beinið hefur gróið.

Dofi:  Þetta er einkum áhætta við aðgerð á neðri kjálka.  Reikna má með að um 90% þeirra sem fara í kjálkaaðgerð á neðri kjálka muni upplifa dofa í neðri vör og höku fyrstu dagana eða vikurnar eftir aðgerðina.  Um 30-35% munu ekki jafna sig að fullu af þessum dofa.  Í þeim tilfellum er eitthvert svæði á höku eða neðri vör dofið að hluta, eins og eftir tannlæknadeyfingu.  Fæstir láta þetta angra sig.  Þeir eru meðvitaðir um þetta en leiða ekki oft hugann að því.  Þó eru undantekningar og búast má við því að 1 - 2% sjúklinga sem dofa eftir kjálkaaðgerð eigi erfitt með að sætta sig við hann.  Þetta er mikilvægt að hafa í huga áður en sjúklingur tekur ákvörðun um aðgerð.